Hvernig trygging er barnatrygging?

Barnatrygging veitir þér og barninu þínu fjárhagslega vernd vegna slysa eða sjúkdóma sem barnið kann að verða fyrir. Hægt er að velja um tvær mismunandi útfærslur þar sem bótasviðið er það sama en bótafjárhæðir eru misháar. Barnatryggingin getur gilt frá eins mánaða aldri til 25 ára aldurs.

Í þessu skjali finnur þú allar helstu upplýsingar um trygginguna. Vakin er athygli á því að atriði sem talin eru upp hér fyrir neðan eru ekki tæmandi listar heldur algeng og lýsandi atriði sett fram í þeim tilgangi að gefa þér góða mynd af tryggingunni í stuttu máli. Nákvæmari upplýsingar er að finna í skilmálum tryggingarinnar. Nýjustu skilmála og frekari upplýsingar um trygginguna finnur þú á tm.is og í TM appinu. Ef þú kaupir trygginguna færðu skírteini og þá skilmála sem gilda í þínu tilviki og getur þar séð nákvæmlega hvernig tryggingavernd þinni er háttað. Þú getur alltaf nálgast yfirlit yfir þínar tryggingar og iðgjöld í TM appinu.

Hvað bætir tryggingin?

  • Bætur vegna varanlegrar læknisfræðilegar örorku í kjölfar slysa eða sjúkdóma. Læknisfræðileg örorka er metin út frá líkamlegum afleiðingum slyss eða sjúkdóms.
  • Dánarbætur vegna andláts barns.
  • Dagpeningar eru greiddir þegar barnið þarf að dveljast á sjúkrahúsi í fimm daga samfleytt eða lengur.
  • Ef barnið greinist með sjúkdóm eða verður fyrir slysi greiðir tryggingin dagpeninga vegna umönnunar á heimili.

Hvað bætir tryggingin ekki?

  • Bætur greiðast ekki vegna meðfæddra sjúkdóma.
  • Bætur greiðast ekki vegna eftirtalinna sjúkdóma, heilkenna eða ástands:
    - Þroskafrávika og þroskahömlunar, þ.á.m., Downs-heilkennis
    - ADD, DAMP eða ADHD (athyglisbrests, misþroska eða athyglisbrests með ofvirkni)
    - Asperger heilkennis
    - einhverfu
    - lesblindu eða annarra námsraskana
    - Tourette heilkennis
    - OCD (áráttu- og þráhyggjuröskunar)
    - geðraskana eða geðsjúkdóma, þ.e. persónuleikatruflana, átraskana, taugageðrænna raskana, geðveiki, hugröskunar, þunglyndis eða langvinnrar þreytu
  • Bætur greiðast ekki vegna sjúkdóma sem rót eiga að rekja til misnotkunar áfengis, lyfja eða vímuefna.
  • Bætur vegna varanlegar læknisfræðilegrar örorku greiðast ekki ef örorkan er metin lægri en 10%.
  • Bætur greiðast ekki vegna slysa eða sjúkdóma af völdum vélknúinna ökutækja.
  • Bætur vegna sjúkrahúslegu greiðast að hámarki í 365 daga vegna sama sjúkdóms eða slyss.
  • Umönnunarbætur greiðast ekki ef barn á ekki rétt á umönnunarbótum frá almannatryggingum.

Eru einhverjar sérstakar takmarkanir?

Tryggingin gildir ekki fyrir börn yngri en eins mánaða.

Ekki er hægt að kaupa trygginguna fyrir börn sem eru 16 ára og eldri.

Umönunnarbætur og sjúkrahúslegubætur falla niður þegar sá vátryggði nær 18 ára aldri.

Hvar gildir tryggingin?

Tryggingin gildir á Norðurlöndum og á ferðalagi erlendis frá búsetulandi í allt að 92 daga. Tryggingin gildir í eitt ár eftir að barn flytur til annars lands en Norðurlandanna.

Hverjar eru mínar skyldur?

Veita okkur réttar upplýsingar um heilsufar barnsins og svara öllum spurningum í umsókn og áhættumati af heiðarleika.

Leita til læknis þegar barn slasast eða veikist og fara að fyrirmælum hans.

Tilkynna til okkar ef barn veikist eða slasast innan árs frá því að það gerist.

Hvenær og hvernig greiði ég fyrir trygginguna?


Almennt er hægt að velja um nokkrar leiðir til að greiða fyrir trygginguna, þ.e. í einu lagi við útgáfu og hverja endurnýjun, með greiðsludreifingu í netbanka eða með kreditkorti.

Hvenær tekur tryggingin gildi og hvenær lýkur henni?

Tryggingin gildir almennt í 12 mánuði frá því tímamarki sem getið er í skírteini og endurnýjast sjálfkrafa sé henni ekki sagt upp á því tímabili til loka þess árs er barnið nær 25 ára aldri ef tryggingunni hefur ekki verið sagt upp áður.

Hvernig segi ég tryggingunni upp?

Almennt er hægt að segja tryggingunni upp hvenær sem er á tryggingartímabilinu með skriflegri uppsögn ef þú færir þig til annars tryggingafélags eða hefur ekki lengur þörf fyrir hana. Iðgjald er þó greitt fyrir þann hluta tímabilsins sem tryggingin var í gildi.