Hvernig trygging er netöryggistrygging?
Netöryggistrygging er hugsuð fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem vilja lágmarka fjárhagslegt tap sitt verði þau fyrir netárás. Netöryggistrygging samanstendur af fimm bótasviðum, þ.e. netárás, gagnaleka, ábyrgð vegna gagnaleka, rekstrarstöðvun og auðkennisþjófnaði, og veitir tryggingin aðgang að þjónustuaðilum hér á landi bæði í netöryggi og á lögfræðisviði.
Hvað bætir tryggingin?
- Netárás: Bætir kostnað þinn vegna endurreisnar tölvukerfa, netkerfa, hugbúnaðar og tölvugagna eftir beina illviljaða árás með spillikóða.
- Rekstrartap: Bætir rekstrartap þitt sem er bein afleiðing af netárás.
- Gagnaleki: Ef persónuupplýsingum er miðlað án þess að miðlunin hafi verið heimil lögum samkvæmt bætir tryggingin kostnað þinn sem hlýst af upplýsingagjöf og ráðgjöf um gildandi reglur og hvernig bregðast skuli við atvikinu.
- Ábyrgð vegna gagnaleka: Skaðabætur ef þú skapar þér bótaábyrgð vegna þess að þú hefur af gáleysi miðlað persónuupplýsingum sem þér ber lagaleg skylda að halda trúnað um. Þá bætist einnig kostnaður við endurreisn orðspors vegna þessa.
- Auðkennisþjófnaður: Bætir kostnað þinn við aðstoð þjónustuaðila sem er ætlað að fyrirbyggja, takmarka eða ákvarða tjón eftir auðkennisþjófnað. Einnig er bættur kostnaður vegna lögfræðilegrar aðstoðar ef nauðsynlegt er að hafna óréttmætum fjárkröfum eða gera upp innheimtukröfur.
Hvað bætir tryggingin ekki?
- Hvers konar sektir, hvort sem einkaaðili eða opinber aðili leggur þær á.
- Hvers konar efnislegt tjón á sjálfum tölvubúnaðinum, tölvustýrðum búnaði, tölvukerfum eða netkerfum.
- Lausnargjald.
Eru einhverjar sérstakar takmarkanir?
Tryggingin bætir ekki kostnað, rekstrartap eða aukið rekstrartap sem hlýst af:
- töfum á að rekstur fari aftur í gang vegna fjármagnsskorts, endurbóta eða stækkunar,
- því að hvers konar tölvustýrður búnaður verður ónothæfur að öllu eða nokkru leyti,
- tjón sem hlýst af miðlun upplýsinga um kredit- eða debetkort undir bótasviðinu „Ábyrgð vegna gagnaleka“.
Hvar gildir tryggingin?
- Tryggingin gildir í starfsemi þinni á Íslandi og á meðan starfsmenn eru á ferðalögum í Evrópu vegna starfa sinna, óháð því hvaðan árásin á sér stað.
- Tryggingin gildir um tölvugögn og hugbúnað þinn óháð því hvar í heiminum þau eru geymd eða hýst í tilviki netárásar.
Hverjar eru mínar skyldur?
- Veita þjónustuaðila og TM réttar upplýsingar um atriði sem geta haft áhrif á mat á áhættunni sem er verið að tryggja.
- Tilkynna tafarlaust um tjón til eftirfarandi aðila:
- Þjónustuaðila í netöryggi: Í tilviki netárásar, gagnaleka og auðkennisþjófnaðar.
- TM: í tilviki rekstrartaps og ábyrgðar vegna gagnaleka.
- Fylgja þeim fyrirmælum sem þjónustuaðilar eða TM gefur í tengslum við tjón.
- Fylgja þeim varúðarreglum sem koma fram í skilmálum tryggingarinnar.
Hvernig greiði ég fyrir trygginguna?
Almennt er hægt að velja um nokkrar leiðir til að greiða fyrir trygginguna, þ.e. í einu lagi við útgáfu og hverja endurnýjun, með greiðsludreifingu í netbanka eða með kreditkorti.
Hvenær tekur tryggingin gildi og hvenær lýkur henni?
Tryggingin gildir almennt í 12 mánuði frá því tímamarki sem getið er í skírteini og endurnýjast sjálfkrafa sé henni ekki sagt upp á því tímabili.
Hvernig segi ég tryggingunni upp?
Almennt er hægt að segja tryggingunni upp hvenær sem er á tryggingartímabilinu með skriflegri uppsögn ef þú færir þig til annars tryggingafélags eða hefur ekki lengur þörf fyrir hana. Iðgjald er þó greitt fyrir þann hluta tímabilsins sem tryggingin var í gildi.
Eftir atvikum er ekki hægt að segja tryggingunni upp á tímabilinu til að flytja tryggingu til annars félags, s.s. ef umfang rekstraraðila samsvarar fleiri en fimm ársverkum.