Staðlað upplýsingaskjal um vátryggingu

Í þessu skjali finnur þú allar helstu upplýsingar um trygginguna. Vakin er athygli á því að atriði sem talin eru upp hér fyrir neðan eru ekki tæmandi listar heldur algeng og lýsandi atriði sett fram í þeim tilgangi að gefa þér góða mynd af tryggingunni í stuttu máli. Nákvæmari upplýsingar er að finna í skilmálum tryggingarinnar. Nýjustu skilmála og frekari upplýsingar um trygginguna finnur þú á tm.is og í TM appinu. Ef þú kaupir trygginguna færðu skírteini og þá skilmála sem gilda í þínu tilviki og getur þar séð nákvæmlega hvernig tryggingavernd þinni er háttað. Þú getur alltaf nálgast yfirlit yfir þínar tryggingar og iðgjöld í TM appinu.

Hvernig trygging er húsbyggjendatrygging?

Húsbyggjendatrygging er sérsniðin fyrir þau sem eru að byggja sitt eigið heimili. Hún tekur til húseignar eða hluta hennar sem er í smíðum en m.a. einnig byggingarefna, verkfæra, áhalda, vinnupalla og vinnuskúra. Þá felur hún einnig í sér slysatryggingu og ábyrgðartryggingu húseiganda.

Hvað bætir tryggingin?

  • Vatnstjón.
  • Brot á rúðugleri.
  • Innbrot.
  • Fok og óveður.
  • Brot og hrun.
  • Sótfall.
  • Slys á byggingarstað.
  • Skaðabótaábyrgð húseiganda.

Hvað bætir tryggingin ekki?

  • Utanaðkomandi vatn.
  • Stífla í frárennslislögnum utanhúss.
  • Sá hluti húseignar sem olli tjóni, t.d. sjálf rörin í húsinu, er aldrei bættur.
  • Slys sem iðnmeistarar, verktakar eða starfsmenn þeirra verða fyrir.
  • Tjón vegna rangrar eða ófullkominnar hönnunar eða útreikninga
  • Tjón vegna notkunar á röngu eða gölluðu efni
  • Afleitt tjón

Eru einhverjar sérstakar takmarkanir?

  • Tryggingafjárhæðin er ákveðin út frá áætluðum heildarbyggingarkostnaði ásamt verðmæti lausafjár.

Hvar gildir tryggingin?

  • Á þeim byggingarstað og fyrir þá húseign sem tilgreind er á skírteini.

Hverjar eru mínar skyldur?

  • Tilkynna TM um breytingar á vinnuaðferð og framgangi byggingarframkvæmda.
  • Tilkynna um athugasemdir opinberra eftirlitsstofnana.
  • Tryggja að umbúnaður á byggingarstað sé í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.
  • Skylda er að hafa byggingarstjóra.

Hvenær og hvernig greiði ég fyrir trygginguna?


Almennt er hægt að velja um nokkrar leiðir til að greiða fyrir trygginguna, þ.e. í einu lagi við útgáfu og hverja endurnýjun, með greiðsludreifingu í netbanka eða með kreditkorti.

Hvenær tekur tryggingin gildi og hvenær lýkur henni?

Tryggingin gildir almennt í 12 mánuði frá því tímamarki sem getið er í skírteini og endurnýjast sjálfkrafa sé henni ekki sagt upp á því tímabili. Þegar komið er brunabótamat á húseignina og hægt er að gefa út fasteignatryggingu fellur þessi trygging úr gildi.

Hvernig segi ég tryggingunni upp?

  • Almennt er hægt að segja tryggingunni upp hvenær sem er á tryggingartímabilinu með skriflegri uppsögn ef þú færir þig til annars tryggingafélags eða hefur ekki lengur þörf fyrir hana. Iðgjald er þó greitt fyrir þann hluta tímabilsins sem tryggingin var í gildi.