Ertu að leigja út fasteign?

Að leigja út fasteign til skamms eða lengri tíma getur verið vandasamt verk. Það færist sífellt í aukana að fólk leigi fasteignir til skamms tíma í gegnum vefsíður. Það er gott að huga að nokkrum atriðum þegar leigja á út fasteign.

Fáðu leyfi

Áður en þú byrjar að leigja út íbúðina skaltu athuga hjá hverjum þú þarft að fá leyfi. Samkvæmt lögum sem tóku gildi 1. janúar 2017 er fólki heimilt að leigja út íbúðirnar sínar í allt að 90 daga á ári án þess að fá rekstrarleyfi hjá yfirvöldum. Þá mega heildartekjurnar ekki fara yfir tvær milljónir króna. Samkvæmt þessum nýju lögum þarftu að tilkynna sýslumanni að þú ætlir að leigja út fasteign og fasteignin þarf að vera samþykkt sem íbúðarhúsnæði og uppfylla skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Þegar þessi leyfi eru komin á hreint er gott að athuga hvort nágrannar þínir séu mótfallnir því að þú leigir þína íbúð út. Í fjölbýlishúsum getur oft verið dálítið ónæði af skammtímaleigu og því er gott að íbúar hússins viti af útleigunni og gefi samþykki sitt fyrir henni.

Ef þú átt ekki eignina en vilt framleigja hana skaltu fá leyfi hjá eigandanum fyrst.

Vertu með tryggingarnar á hreinu

Það getur reynst flókið og erfitt að fá greiddar bætur hjá þjónustuaðilum sem halda utan um skammtímaútleigu eigna en þess er m.a. krafist að leita þurfi alltaf fyrst til tryggingafélags leigjanda áður en sótt er um bætur hjá þeim. Til einföldunar býður því TM viðskiptavinum sínum viðbót við tryggingaverndina sem tryggir eign leigusala þegar hún er leigð til ferðamanna.


Heimagisting TM tekur á þjófnaði og skemmdarverkum á innbúi á meðan eignin er í útleigu í 90 daga á ári eða skemur. Tryggingin kostar um 4.500 kr.

Skráning

Áður en þú skráir íbúðina þína á vefsíðu skaltu ákveða hvort þú ætlar að leigja hana alla út eða aðeins hluta hennar. Þá skaltu taka myndir af íbúðinni eða þeim hluta sem er til leigu. Myndirnar skipta miklu máli þar sem þær eru aðalatriðið þegar fólk skoðar íbúðir á síðunni. Leggðu metnað í að taka góðar myndir. Það er mikilvægt að skráningin sé skýr og höfði til þeirra gesta sem þú vilt að leigi af þér. Hafðu titilinn grípandi og lýsingarnar hnitmiðaðar. Passaðu að verðið sé sanngjarnt. Alls ekki of lágt en heldur ekki of hátt. Síðan setur þú skráninguna upp á einfaldan hátt og þegar þú hefur lokið henni getur fólk flett þér upp og sótt um að leigja af þér.

Forðastu svindlara

Til að forðast svindl skaltu alltaf borga, taka við greiðslum og eiga öll samskipti í gegnum heimasíðu heimagistingarinnar. Gott er að nota skilaboðakerfi síðunnar til að eiga samskipti við gestina, útskýra fyrir þeim við hverju þeir megi búast og fá að vita hvað sé hægt að gera fyrir þá.

Ekki leigja hverjum sem er

Grandskoðaðu þann sem biður um að fá að leigja íbúðina þína. Skoðaðu síðuna hans, ummæli hans um íbúðir sem hann hefur leigt og einkunnirnar sem hann hefur fengið frá þeim sem hann hefur leigt af. Ef einhverjar grunsemdir vakna hjá þér um að aðilinn sé með óhreint mjöl í pokahorninu skaltu ekki leigja honum.

Settu reglur

Á síðunni setur maður reglur um það sem má og ekki má. Hafðu þær skýrar. Þar setur þú allt sem þú vilt að gestir viti áður en þeir koma. Hvort þeir megi fara inn á skónum, hvort þeir megi reykja, hvort þeir megi halda partí eða hvort einhvern glugga megi alls ekki opna.

Skýrar upplýsingar

Á síðunni skráir maður símanúmer og tengiliði sem hægt er að hafa samband við ef neyðaratvik kemur upp. Þar er einnig hægt að setja upplýsingar um hvar slökkvitæki sé að finna, reykskynjara og neyðarútganga. Mikilvægt er að hafa þetta allt mjög skýrt. Þá er einnig gott að prenta út allar þessar upplýsingar og hafa á vísum stað.

Skoðaðu ástandið eftir leigu

Skoðaðu ástandið á íbúðinni eftir leigjendur. Ef þeir tilkynna ekki um nein óhöpp ætti allt að vera í lagi en það er gott að líta yfir íbúðina. Ef til vill eru hlutir í íbúðinni sem hafa tilfinningalegt gildi og það væri leiðinlegt að taka eftir því einn daginn að þeir séu horfnir en þú hefur ekki hugmynd um hvenær þeir hurfu.

Settu skilyrði

Settu þau skilyrði sem þér finnst mikilvægt að þínir gestir geti uppfyllt áður en þú leigir þeim. Þú getur jafnvel krafist tryggingar sem getur komið sér vel ef eitthvað kemur upp á.

Það eru nokkur atriði sem góður leigusali þarf að vera með á hreinu

  • Hringdu á undan þér ef þú þarft nauðsynlega að komast inn.
  • Ef þú ert að leigja alla íbúðina út skaltu aldrei mæta á svæðið án þess að láta vita af þér.
  • Þú þarft alltaf að eiga handklæði, aukarúmföt og aukalykil á vísum stað.
  • Nóg af klósettpappír. Klósettpappírinn má aldrei klárast. Aldrei.
  • Ef þú ert með þitt á hreinu, tryggir og undirbýrð þig vel áður en þú ferð út í skammtímaleigu, ætti hún að reynast þér farsæl. Þú getur fengið dálitla búbót út úr viðskiptunum, öðlast reynslu sem leigusali og jafnvel kynnst áhugaverðu fólki sem nýtir sér þjónustu þína.

Heimilistryggingar TM með Heimagistingu

Heimilistryggingar hjá TM eru fjórar talsins og er þeim skipt niður eftir umfangi og bótafjárhæðum. Þær búa allar yfir valkostum eins og Heimagistingu. Það gerir þér kleift að setja saman þá tryggingu sem hentar þér, þinni fjölskyldu og leiguíbúðinni sem best.