Öryggi á heimilinu

Hægt er að gera ákveðnar öryggisráðstafanir á heimilinu til þess að koma í veg fyrir algeng slys á börnum. Það léttir bæði börnum og foreldrum lífið ef heimilið er öruggt. Barnið er þá í betri aðstöðu til að rannsaka öruggt umhverfi og foreldrar þurfa ekki í sífellu að kalla boð og bönn. Þótt heimilið sé öruggt má þó aldrei sofna á verðinum enda þarf alltaf að vera í viðbragðsstöðu nálægt börnum.

Hér eru nokkur atriði sem ættu að hjálpa:

Er eldhúsið öruggt?

Í eldhúsinu eru rafmagnstæki, eldavél, skápar, skúffur og fleira sem barni gæti fundist spennandi.

Skúffur

Nauðsynlegt er að passa upp á skúffur svo þær klemmi ekki putta eða að hætta sé á því að barn fái þær yfir sig. Það er annars vegar hægt að gera með því að setja á skúffurnar barnalæsingu sem hindrar að barn geti opnað þær og hins vegar að setja á skúffurnar stoppara þannig að þær dragist ekki alla leið út.

Eldavél og bakaraofn

Skynsamlegt er að setja hlífar fyrir hellur á eldavél og minnka þannig líkurnar á að barn brenni sig á hellunum. Gætið þess að barn sé aldrei eftirlitslaust í eldhúsi þegar heitir pottar eru á eldavélinni. Hægt er að setja barnalæsingu á bakaraofninn svo barn geti ekki opnað hann en einnig er hægt að koma í veg fyrir að barn geti kveikt á ofninum eða stillt hitastigið með sérstakri loku. Hafðu í huga að lokuð bakaraofnshurð getur orðið það heit að barn getur brennt sig á henni.

Rafmagnstæki

Hægt er að setja haldara fyrir snúrur á rafmagnstækjum, eins og t.d. rafmagnskatli, eða stytta þær til að koma í veg fyrir að barn kippi tæki eða katli yfir sig.

Skápar og kæliskápar

Líkt og með bakaraofninn er hægt að koma í veg fyrir ýmiss konar slys með því að setja barnalæsingu á skápa og kæliskápa. Barn getur klemmt sig á skápahurð eða gert sér að leik að skríða inn í skáp og lokast þar inni.

Börn kanna heiminn með munninum, gættu þess að barnið komist ekki í smáhluti til að koma í veg fyrir köfnun.

Er stofan og önnur herbergi örugg?

Líkt og í eldhúsinu má finna skúffur og skápa í stofunni og í öðrum herbergjum. Því þarf að fara yfir stofuna og önnur herbergi og gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir slysahættur.

Hillur

Hillur geta virkað sem spennandi klifurgrindur fyrir börn og því nauðsynlegt að þær séu festar vel við vegg, það kemur í veg fyrir að barn geti togað hillurnar í heild sinni yfir sig.

Hvöss horn

Í stofunni geta verið hvöss horn, s.s. á borðum og skápum, sem auðvelt er að sveipa með plasthlífum. Þetta minnkar skaðann verulega þegar börn komast á skrið.

Hurðir

Ráðlagt er að koma í veg fyrir að hurðir gerist ekki slysagildrur með því að setja dempara á þær eða fleyga undir þær.

Rafmagn

Rafmagnsbúnað þarf að passa upp á um allt hús. Það er til að mynda gert með því að setja plastlok fyrir allar innstungur.

Stigar

Stigar geta verið ævintýralegir í augum barna en fram að fjögurra ára aldri og jafnvel lengur geta þeir verið stórhættulegir börnum. Því er nauðsynlegt að takmarka aðgengi barna að þeim með lokuðu hliði bæði uppi og niðri. Grindin þarf að vera að minnsta kosti 60 cm að hæð og bil rimla má ekki vera meira en 7,5 cm. Ráðlagt er að kenna barni strax að skríða aftur á bak niður tröppur.

Útsýnisgluggar

Þegar barn er farið að skríða og príla er mikilvægt að fylgjast vel með gluggum þar sem börn geta verið fljót að príla upp að þeim. Hægt er að koma í veg fyrir slíkar slysagildrur með því að setja öryggisstormjárn á glugga sem hindrar að hægt sé að opna þá meira en 10 cm.

Nokkur ráð til að koma í veg fyrir að húsgögn falli

  • Hirslur og sjónvörp geta valdið alvarlegum meiðslum ef þau falla fram fyrir sig – festu þau ávallt við vegg.
  • Geymdu þyngstu hlutina neðst til að færa hirslunni betri stöðugleika.
  • Börn geta freistast til að klifra upp á húsgögn til að ná í leikfang eða aðra hluti – geymdu freistandi hluti í lægri hillum til að koma í veg fyrir slíkt.
  • Lítil börn eru með hlutfallslega þung höfuð og geta því auðveldlega misst jafnvægið. Komdu í veg fyrir að barnið komist upp í glugga og settu á þá
  • gluggafestingar.
  • Börn geta dottið þegar þau hlaupa – stamt undirlag og hornhlífar geta komið í veg fyrir slys.
  • Stigar geta verið spennandi leikstaður – ef stigagangurinn er illa upplýstur, í óreiðu eða án öryggishliða bæði að ofanverðu og neðanverðu eru meiri líkur á slysi.

Er baðherbergið öruggt?

Vatnskranar og baðkar

Það getur verið sérstaklega spennandi fyrir barn að skrúfa frá krana og láta vatnið renna. Hægt er að fá vatnskrana með hitastillum til að barn geti ekki skrúfað frá brennandi heitu vatni. Hafið í huga að ekki þarf nema 10 cm djúpt vatn til að barn geti drukknað. Geymið ekki tappann í baðkarið á stað sem barnið nær til, það kemur í veg fyrir að barnið geti fyllt baðkarið sjálft.

  • Hafðu börn aldrei eftirlitslaus í baði – þau geta átt erfitt með að standa upp aftur ef þau renna og geta drukknað í afar grunnu vatni.
  • Stöm motta í baðinu minnkar hættu á að barnið renni til.
  • Hitastig baðvatnsins ætti að vera það sama og líkamshiti barnsins eða lægra. Börn eru með þunna viðkvæma húð sem brennur auðveldlega.

Klósettið

Hægt er að passa upp á klósett með því að setja á það tvær klemmur sem hindra að barn geti opnað það sjálft.

Eiturefni

Sérstaks öryggis skal gætt ef í skápum eru hættuleg eða eitruð efni. Lyf, uppþvottaefni, hreingerningarduft, þvottaduft og fleiri slík eiturefni skulu ávallt vera í læstum skáp. Einnig er hægt að setja barnalæsingu á skápa sem geyma slík efni.

Er barnaherbergið öruggt

Nokkur ráð til að búa um ungbarnarúm á öruggan hátt:

  • Notaðu stífa barnadýnu til að koma í veg fyrir fyrirstöðu við öndunarveg.
  • Ungbarnarúmið og dýnan ættu að vera í sömu stærð til að koma í veg fyrir að barnið festist eða kafni á milli þeirra.
  • Teygjulak ætti að vera í sömu stærð og dýnan, lakið má ekki vera laust á.
  • Notaðu dýnuhlíf úr efni sem hleypir lofti í gegn til að koma í veg fyrir köfnun. Efni sem anda ekki eru eingöngu ætluð börnum sem eru eldri en þriggja ára.
  • Lækka þarf botninn í ungbarnarúminu í lægstu stöðu um leið og barnið er fært um að sitja eitt og óstutt.
  • Fjarlægðu hliðina eða skiptu yfir í barnarúm þegar barnið er orðið nógu stórt til að klifra upp úr ungbarnarúminu til að koma í veg fyrir að það detti úr því.

Nokkur ráð til að stuðla að öryggi í kringum ungbarnarúm

  • Hafðu rúmið fjarri gardínum, lampasnúrum og gardínusnúrum, börnum stafar alvarleg köfnunarhætta af þeim.
  • Haltu rúmtjaldi, óróa og síðum vefnaðarvörum í fjarlægð frá ungbarnarúminu.
  • Staðsettu ungbarnarúmið fjarri ofnum, heitum lögnum og beinu sólarljósi, húð barns er þunn og brennur auðveldlega.
  • Hafðu önnur húsgögn í öruggri fjarlægð frá ungbarnarúminu þannig að barnið geti ekki notað þau til að klifra upp úr rúminu. Húsgögnin gætu skapað hættu á að barnið detti eða festi sig.
  • Festu aldrei snaga, höldur eða annað slíkt á ungbarnarúmið, barnið gæti fest sig þegar það hreyfir sig í rúminu.

Hvaða tryggingar þarf ég?

Griðastað fjölskyldunnar er mikilvægt að vernda svo öllum líði vel. Víðtækar heimilistryggingar TM veita þér og þínum þá mikilvægu vernd.