Sjálfbærni hjá TM

Með sjálfbærni að leiðarljósi

TM hefur um árabil haft sjálfbærni í forgrunni og vinnur að því að dýpka innleiðingu UFS-þátta í starfsemi félagsins. Innleiðing á sjálfbærni snertir alla meginþætti starfsemi TM en það er í eigin starfsemi, í fjárfestingum og vátryggingum. Á árinu var aukin áhersla lögð á þekkingu starfsmanna á UFS-þáttum í starfsemi TM og í þeim tilgangi var haldin kynning um áherslur í málaflokknum fyrir stjórnendur. Ráðgert er að halda sams konar kynningu fyrir starfsfólk TM á fyrri hluta árs 2024

Helstu UFS-málefni í starfsemi TM

Eigin starfsemi

  • Umhverfismál í eigin rekstri
  • Jafnréttismál
  • Stjórnarhættir
  • Viðskiptahættir

Fjárfestingar

  • Ábyrgar fjárfestingar
  • Græn skuldabréf
  • PCAF mat á fjárfestingasafni

Vátryggingar

  • Val á viðskiptum út frá UFS viðmiðum
  • Grænar vörur
  • Ábyrg tjónaþjónusta
  • Áhættumat nýrra viðskipta > 50 manna fyrirtæki

Stýring sjálfbærniáhættu hjá TM

Sjálfbærniáhættustefna TM var mótuð á árinu samkvæmt sjálfbærniáhætturamma samstæðunnar. Stefnan inniheldur þrjár undirstefnur sem lýst er hér að neðan.

Stefna um ábyrgar fjárfestingar

Markmið stefnu TM um ábyrgar fjárfestingar er að samþætta sjálfbærni, eða UFS-þætti, við núverandi verkferla þegar fjárfestingarákvarðanir eru teknar. Framkvæmd stefnunnar felur meðal annars í sér að taka mið af UFS-þáttum við greiningu fjárfestingarkosta, að vera virkur eigandi þegar við á og taka þá tillit til UFS-þátta og að kalla eftir upplýsingum um UFS-þætti frá hagaðilum þegar við á.


Stefna um ábyrgt vöru- og þjónustuframboð

Með ábyrgu vöru- og þjónustuframboði er átt við að tekið sé mið af UFS-þáttum við stofnun nýrrar vöru eða þjónustu og við þróun þeirra. Við innleiðingu stefnunnar mun meðal annars vera kallað eftir upplýsingum um UFS-þætti þegar það á við, tekið tillit til annarra stefna sem snúa að sjálfbærni og útgáfa skýrslna um árangur innleiðingu stefnunnar.


Stefna um sjálfbærni í tjónaþjónustu og forvarnir

Með ábyrgri tjónaþjónustu er átt við að UFS-þættir eru teknir til greina við úrvinnslu tjóna. Meðal stefnumiða er takmörkun kolefnisspors tjóna og að stuðlað sé að því að tjónamunir renni inn í hringrásarhagkerfið að því marki sem unnt er með endurnotkun, viðgerð eða endurvinnslu. Einnig eru sett inn viðeigandi ákvæði í samninga við þjónustuaðila í tjónum, efling á fræðslu til starfsfólks, viðskiptavina og annarra hagaðila og virk upplýsingagjöf.

Hjá TM er hafin vinna við mat á loftslagsáhættu sem einum lið í áhættustýringu félagsins. Þess ber þó að geta að stærsti hluti tjóna sem rekja má til náttúruhamfara af völdum loftslagbreytinga er á ábyrgð Náttúruhamfaratrygginga Íslands og því ekki stór hluti af áhættustýringu í rekstri félagsins. Mat á loftslagsáhættu var í fyrsta sinn hluti af eigin áhættu og gjaldþolsmati TM, eða ORSA (e. Own Risk and Solvency Assessment) áhættumati, fyrir árið 2022 en þar er meðal annars lagt mat á áhættu vegna loftslagsbreytinga og gerðar sviðsmyndagreiningar tengdar áhættunum. Niðurstöður matsins eru skjalfestar í ORSA skýrslu félagsins. TM metur loftslagsáhættu út frá tveimur meginflokkum slíkrar áhættu en þeir eru raunlæg áhætta og umbreytingaráhætta

Þróun í ábyrgum fjárfestingum TM

Umfangsmikil vinna hefur átt sér stað innan TM við að mæla umhverfisáhrif fjárfestinga félagsins en ábyrgar fjárfestingar eru meginstoð í UFS-stefnu TM sem og sjálfbærniáhættustefnu félagsins. Búið er að innleiða UFS-áhættumat í allar nýjar fjárfestingar samkvæmt sjálfbærniáhættustefnunni. Á árinu var farið í vinnu við flokkun skaðatrygginga TM samkvæmt Flokkunarreglugerðinni. Í vátryggingastarfsemi falla flestar skaðatryggingar undir gildissvið reglugerðarinnar (e. eligible). Líftryggingar og ábyrgðartryggingar gera það hins vegar ekki. TM miðar við að reglugerðin nái yfir þær vátryggingar sem undanskilja ekki áhættu vegna atburða sem tengjast loftslagsbreytingum, bótaskylda vegna slíkra atburða er þá ekki undanskilin í skilmálum félagsins. Reglugerðin nær því yfir eftirtalda flokka vátrygginga:

  • Eignatryggingar
  • Sjó-, flug- og farmtryggingar
  • Ökutækjatryggingar
  • Slysatryggingar

Á fyrsta innleiðingarári falla 92% af iðgjöldum skaðatrygginga að reglugerðinni (e. aligned) en til þess að vátryggingar geti fallið að Flokkunarreglugerðinni þurfa þær að uppfylla sérstök viðmið sem þar eru sett fram. TM birtir upplýsingar samkvæmt 8. gr. Flokkunarreglugerðarinnar sem nálgast má í viðauka við ársreikning félagsins fyrir árið 2023.

Sjálfbærni í forvörnum og tjónavinnslu

Áhersla á sjálfbærni í vátryggingaþjónustu, forvörnum og vöruúrvali voru í forgrunni hjá TM á árinu 2023 sem fólst meðal annars í innleiðingu á UFS-áherslum við endurnýjun samninga við verkstæði og þjónustuaðila sem sinna tjónamálum eigna og ökutækja. Þá er einnig unnið að innleiðingu á nýju kerfi fyrir eignatjón sem gefur meiri möguleika á stýringu fyrir vinnslu tjóna þar sem tillit er tekið til endurnýtingar tjónamuna eða förgunar. Hjá TM hafa tjónamunir verið endurnýttir um árabil. Rekið er sérstakt endurvinnslurými þar sem tjónamunir eru geymdir og þeim fundið nýtt hlutverk. Sérstök ákvæði hafa verið sett í samninga um ábyrga tjónaförgun þar sem vísað er í endurvinnslu, flokkun, endurnýtingu og förgun. TM hefur stutt við innleiðingu á tæknibúnaði frá Hefring Marine sem mælir meðal annars högg sem farþegar verða fyrir við siglingu farþegabáta/RIB-báta. Þetta hefur stuðlað að forvörnum og fækkun slysa hjá viðskiptavinum TM sem meðal annars njóta þess í lægri iðgjöldum. TM var þátttakandi í vinnuhópi Samtaka fjármálafyrirtækja um gerð nýrrar útgáfu af loftlagsvegvísi atvinnulífsins. Niðurstaða hópsins var að leggja áherslu á að draga úr tjónum með forvörnum og minnka kolefnisspor við úrvinnslu tjóna með því að stuðla að því að tjónamunir renni inn í hringrásarhagkerfið að því marki sem unnt er með endurnotkun, viðgerð eða endurvinnslu.
Niðurstaða var að leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi þætti:

  • Auka forvarnir gegn tjónum
  • Auka framboð á innlendum notuðum varahlutum í ökutæki
  • Efla fræðslu til viðskiptavina
Hjá TM hafa tjónamunir verið endurnýttir um árabil. Rekið er sérstakt endurvinnslurými þar sem tjónamunir eru geymdir og þeim fundið nýtt hlutverk.

Aðild TM að Principles for Sustainable Insurance (PSI)

TM gerðist aðili að alþjóðlegum sjálfbærniramma fyrir tryggingafélög, Principles for Sustainable Insurance (PSI), í byrjun árs 2023. PSI er samvinnuverkefni Sameinuðu þjóðanna og vátryggingafélaga og snýr að stjórnun umhverfis, félags og stjórnunaráhættu sem og nýtingu tækifæra. Með aðildinni hefur TM skuldbundið sig til að vinna samkvæmt viðmiðum PSI en þau eru: 

  • Innleiðing UFS-þátta í starfsemi félagsins. 
  • Samstarf við viðskiptavini og samstarfsaðila um vitundarvakningu á málefnum sjálfbærni með áherslu á áhættustjórnun UFS-þátta og þróun viðeigandi lausna. 
  • Samstarf við stjórnvöld og aðra meginhagaðila til að auka vitund um UFS málefni. 
  • Regluleg skýrslugjöf um árangur í innleiðingu viðmiðanna. 

Með aðild að PSI fær TM aðgang að ýmsu fræðsluefni fyrir starfsfólk sem nýtist við þjálfun og vitundarvakningu um UFS-málefni. Fyrstu skýrslu um árangur á innleiðingu viðmiða PSI var skilað inn til samtakanna í árslok 2023.